Rjómalagað sveppapasta
Þetta vegan rjómasveppapasta klikkar bara ekki!
Þetta er vinsælasta uppskriftin hjá GÓ Heilsu hingað til og því tilvalið að hún sé fyrsta uppskriftin sem fær að fara inn á heimasíðuna.
Þetta er fullkomin máltíð eftir fjallgöngu eða þegar maður er búinn að hreyfa sig vel!
Það er ekki svo langt síðan ég byrjaði að kunna að meta sveppi en eftir að maður venst bragðinu og áferðinni þá finnst mér ekki aftur snúið. Ég nota núna sveppi mjög mikið í allskonar matargerð og er líka að fikra mig áfram með sveppakaffi og aðra sveppadrykki. Þeir koma frábærlega í staðinn fyrir kaffi þar sem ég drekk það ekki. Set inn uppskriftir með sveppadrykkjum við tækifæri fyrir áhugasama!
Þetta pasta er í rauninni mjög einfalt í framkvæmd. Ef þú kýst hámarks þægindi þá kaupir þú niðurskorna sveppi en annars finnst mér gaman að blanda saman mismunandi tegundum af sveppum, t.d. flúðasveppir, villisveppir, shitake, portabello og ostru sveppir.
Fyrir hve marga: 4
Undirbúningur: 10 mín
Eldunartími: 20 mín
Erfiðleikastig: Auðvelt
Uppskrift
Sveppirnir:
2 msk hitaþolin olía (avocado-, repju-, bragðlaus kókosolía)
1 box (eða meira ef þú elskar sveppi!) sveppir, niðurskornir
1-2 hvítlauksrif eftir því hversu mikið þú elskar hvítlauk
2 msk herbes de provence krydd eða blanda af basilíku og oregano
Sósan:
1 bolli soðið vatn
1/2 grænmetiskraftur
1/2 sveppakraftur
1/2 hvítlauks og jurtakraftur
1 tsk soja eða tamarisósa
250ml vegan rjómi
+smá auka creamy haframjólk ef vill
100g spínat og/eða grænkál, gróflega skorið
Pastað:
400-500g þurrt pasta
-eða
700-800g ferskt pasta
Leiðbeiningar
Byrjaðu á því að skera sveppina í þunnar sneiðar.
Hitaðu olíuna á pönnu við meðalhita og skelltu maukuðum hvítlauksgeirunum útá í smá stund áður en þú bætir svo sveppunum við. Þá skaltu hækka hitann örlítið þannig að sveppirnir brúnist vel. Þú þarft að hræra af og til í þeim.
Á meðan getur þú sett pastað í pott og soðið það eins og leiðbeiningar segja til um. Fyrir soðið blandar þú einfaldlega saman öllum kröftunum í soðna vatnið og þegar sveppirnir eru orðnir vel brúnaðir þá hellir þú blöndunni útá þá og leyfir að malla aðeins áður en áfram er haldið.
Undir lokin bætir þú svo rjómanum og soja/tamari sósunni við og þynnir með haframjólk ef það á við.
Þegar pastað er tilbúið skilur þú vökvann frá og blandar því saman við sósuna ásamt því að bæta spínatinu og grænkálinu samanvið. Hér máttu slökkva undir eða lækka vel á hitanum og leyfa öllu að blandast saman í 2-3 mínútúr.
Það er rosalega gott að bera pastað fram með baunaspírum, hempfræjum og hvítlauksbrauði.
Njóttu vel og skildu endilega eftir komment ef þú hefur prófað þessa uppskrift!
GÓ Heilsa